Erlent | 04.July

12 ára drullar yfir landsliðsmann fyrir að brenna af víti: Mamman tekur af honum vasapeningana og símann

Danski landsliðsmaðurinn Nicolai Jørgensen hefur fengið fjölda hótana og hatursfull skilaboð á netinu fyrir að brenna af víti í leiknum gegn Króatíu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Orð eins og „fökkaðu þér homminn þinn,“ „fökk þú ert skítur feita svínið þitt, ég legg heimili þitt í rúst gyltan þín, „ eru orð sem greinilega eru út fyrir allt velsæmi.

Ríkisútvarpið danska skoðaði betur hverjir eru á bak við fúkyrðaflauminn og komst að því að mikið til er þetta skrifað af mjög ungu fólki.

Ein ummælin voru rakin til 12 ára drengs: „Fökkaðu þér þú fökking skítapési, þú ert sá versti fótboltaspilari í heiminum og þú hefur ekki gert neitt gott fyrir Danmörku á HM þú fökking amatör,“ segir drengurinn í skilaboðum til Jørgensen á netinu.

Íþróttadeild DR tók sig til og hafði samband við móður drengsins sem fékk áfall við fréttina af hegðun sonarins. Sérstaklega var þetta pínlegt fyrir hana þar sem hún er kennari og fæst sérstaklega við að vinna með börnum um rétta hegðun á samfélagsmiðlum.

Móðirin sagði að hún væri gul og græn yfir því að hennar eigin sonur skildi verða uppvís að netníði. Hún sagði að hún myndi eiga langt samtal við soninn um hegðunina og að auki yrði síminn og vasapeningurinn tekinn af stráknum. Enn frekar munu foreldrarnir krefjast þess að fá aðgang að instagrammi drengsins auk Snapchat og öllum öðrum reikningum sem hann hefur á netinu.