Erlent | 12.October

75 ár frá því að gyðingum var bjargað yfir til Svíþjóðar

Þess er nú minnst í Danmörku að 75 ár er frá því að gyðingum í landinu var bjargað frá flutningi í útrýmingarbúðir nasista. Njósn hafði borist til dönsku andspyrnuhreyfingarinnar um að nóttina 1. og 2. október 1943 ætluðu nasistar að handsama alla gyðinga í Danmörku og flytja þá í útrýmingarbúðir. Danskir íbúar ásamt andspyrnuhreyfingunni brugðust hratt við og náðu að flytja nánast alla gyðinga í landinu, um 7.000 manns yfir til Svíþjóðar þar sem sænsk yfirvöld tóku við fólkinu og veittu því mat og húsaskjól. Allar fleytur sem gátu flotið voru notaðar til þess að koma fólkinu yfir Eyrarsund og til Svíþjóðar.

Gríðarlegt mannúðarafrek

Danir minnast nú þessa stóra mannúðarafreks með ýmsu móti næstu daga. Danska sjónvarpið var með beina útsendingu í gær frá minningarathöfn um þennan atburð.

En flutningurinn yfir Eyrasund var ekki alveg ókeypis. Margir trillukarlar tóku gjald fyrir áhættuna sem þeir tóku sjálfir með því að flytja gyðingana yfir, um 1.000 danskar krónur á þeim tíma sem reiknast til að vera um 20.000 danskar krónur að núgildi. Því voru það þeir ríku sem komust fyrst yfir til Svíþjóðar en andspyrnuhreyfingin safnaði peningum og greiddi farið fyrir þá sem ekki höfðu efni á því. Nasistar náðu um 500 dönskum gyðingum og voru þeir fluttir í útrýmingarbúðir í Theresienstadt og af þeim fjölda dóu 60 manns.