Erlent | 03.January

Bretar kalla til tvær freigátur gegn hælisleitendum

Bretar hafa kallað til tvær freigátur til að gæta Ermasunds, svæðisins milli Bretlands og Frakklands, vegna skyndilegrar aukningar á flæði hælisleitenda sem reyna að komast yfir sundið á litlum bátum. Franska lögreglan hefur komið í veg fyrir margar tilraunir fólks til að komast yfir til Bretlands ólöglega.

Svo virðist sem skipulögð glæpasamtök standi á bak við skyndilega fjölgun á tilraunum hælisleitenda til að komast yfir til Bretlands en grunur leikur á að þau selji fólki gúmmíbáta til fararinnar. Yfirvöld í Bretlandi eru staðráðin í að koma í veg fyrir að málið fari úr böndunum eða verði stjórnlaust og hafa því sent tvær freigátur til eftirlits með sundinu.

Talið er að ástæðan fyrir breyttri aðferð smyglara við að koma fólki yfir til Bretlands sé mjög hert landamæraeftirlit.

Eins og flestir vita hafa Bretar aldrei verið í Schengen.

Hingað til hafa smyglarar reynt að koma fólki yfir með því að fela það í flutningabílum en það er orðið nær ómögulegt í dag vegna eftirlits Breta. Íranir eru í meirihluta þeirra sem reyna núna að komast yfir á bátum. Ástæðuna telja fréttaskýrendur BBC vera þá að Íranir séu efnaðri en aðrir hælisleitendur, en þeir eru ekki að flýja stríð heldur efnahagsþvinganir annarra þjóða á heimaland þeirra. Málið hefur vakið upp miklar umræður í Bretlandi enda telja yfirvöld að meðal þeirra sem séu að reyna komast yfir séu glæpamenn sem Bretar hafa engan áhuga á að fá inn í landið. Innanríkisráðherra Breta Sajid Javid flaug heim í skyndi í síðustu viku úr fríi vegna ástandsins en hann hafði áætlað að vera lengur með fjölskyldu sinni í fríi í Suður-Afríku. Hann sagði við fjölmiðla að hann hefði engar augljósar skýringar á því hvers vegna þetta ástand hefði skapast. Hælisleitendur sem Sky news fréttastofan talaði við og spurði hvers vegna þeir vildu koma til Bretlands en ekki vera áfram í Frakklandi, svöruðu því til að ein ástæðan væri sú að mikil harka einkenndi franska stjórnsýslu og einnig sögðust þeir hræðast frönsku lögregluna sem tæki fast á málum hælisleitenda. Það hefði hins vegar frést meðal hælisleitenda að bresk stjórnsýsla og lögregla tæki mildilega á hælisleitendum ef þeir á annað borð komast komast inn í landið og félagsþjónustuna.

Bretar hyggjast taka ákveðið á málinu í samstarfi við frönsk stjórnvöld.