Erlent | 02.November

Kínverjar reyna enn að ná fótfestu á Grænlandi: Kínverski herinn horfir til Íslands

Helstu ráðamenn grænlensku landsstjórnarinnar eru nú staddir í opinberri heimsókn í Kína. Heimsóknin hófst með fundi Kim Kielsen, sem fer fyrir landsstjórninni á Grænlandi, Karl Kristian Kruse, sem hefur málefni sjávarútvegs á sinni könnu, og varautanríkisráðherra Kína Wang Chao.

Í heimsókninni munu fulltrúar landana ræða samvinnu í loftlagsmálum, þróun innri uppbyggingar Grænlands, kínverska ferðamennsku á Grænlandi, útflutning á fiskafurðum til Kína, námugröft og samstarf í menntamálum eins og segir í fréttatilkynningu frá landsstjórninni.

Auk þess segir að viðræður hafi átt sér stað um að Kínverjar reisi flugvelli á Grænlandi. Þar er talað um staði eins og Nuuk, Ilulissat og Qaqortoq.

Kínverjar hafa lengi reynt að ná fótfestu á Grænlandi. Ýmis áform Kínverja og kínverska fyrirtækja hafa farið í vaskinn hingað til vegna andstöðu frá Dönum. Eins og ætlun þeirra að hefja stórtæka járngrýtis vinnslu sem hefði þýtt innflutning á tvö þúsund námaverkamönnum frá Kína til Grænlands. Einnig komu Danir í veg fyrir að Kínverjar gætu keypt yfirgefna herstöð á Grænlandi 2014. Þess í stað var gert samkomulag um að opna stöðina aftur og var samstaða um það á danska þinginu.

Kínverski herinn hefur áhuga á Íslandi

Það þótti sæta tíðindum þegar Kínverjar keyptu risabyggingu undir starfsemi sendiráðs síns á Íslandi og er það stærsta sendiráð þeirra í Evrópu. Það þóttu líka tíðindi þegar kínverskur auðmaður sem sagður var hafa sterk tengsl við kínverska kommúnistaflokkinn reyndi að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum og sagðist vilja reisa þar golfvöll. Kínverjar hafa reist hér rannsóknarstöð í Reykjadal í Þingeyjasýslu undir því yfirskini að verið sé að rannsaka norðurljósin. Pascal Heyman verkefnastjóri hjá Öryggis- og samvinnustofnun varaði Íslendinga eindregið við starfsemi Kínverja á Íslandi og dró í efa starfsemi rannsóknarstöðvarinnar í Þingeyjasýslu. Kínverjar hafa einnig aðstöðu í Háskóla Íslands þar sem þeir reka stofnun Konfúsíusar en sömu starfsemi Kínverja í Stokkhólmsháskóla var lokað vegna áróðurs sem talinn var runninn undan rifjum kínverska stjórnvalda. Mörg hundruð slíkum stofnunum hefur verið lokað út um allan heim.

Árið 2011 birtist frétt á mbl.is þar sem vitnað var í umfjöllun kanadíska blaðsins Globe and Mail sem er helsta dagblað Kanada. Tilefni umfjöllunarinnar voru áform Kínverjans Huang Nubo um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Blaðið ræddi við sérfræðinga í varnarmálum um málið og voru þeir sammála um að „kínverski herinn horfi til Íslands sem ákjósanlegs staðar til að reisa hafnir og önnur mannvirki. Ástæðan er hugsanleg opnun siglingaleiða á norðurslóðum,“ segir í frétt mbl.is frá þessum tíma. Einnig er þess getið að málið sé sett í samhengi við áhuga kínverskra stjórnvalda á að fjölga kafbátum í Kínaher.

Í lok fréttar mbl.is af umfjöllun um grein Globe and Mail segir: „Suma embættismenn í Reykjavík grunar að herra Huang hafi viljað landið af meira tilefni en til að opna golfvöll. Kanadískir hermálasérfræðingar eru því sammála.“ Þess má geta að Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra sagðist ekkert mark taka á þessari frétt kanadíska blaðsins í viðtali við sjónvarpið
No ad