Erlent | 09.November

Menn farnir að borða eigið sorp

Nýlegar rannsóknir sýna að plast er farið að dreifa sér í iður smæstu sjávardýra. Það hefur verið vitað í nokkurn tíma hvernig plast hefur leikið hvali og stærri sjávardýr. Mikið magn plastúrgangs hefur fundist fast í iðrum hvala.

Greint er frá því á vef nrk.no að sjávarlíffræðingar hafi fundið plastagnir í þörmum örsmárra lífvera fleiri hundruð kílómetra frá landi.

Plast sem kastað er í hafið eða hafnar þar af öðrum ástæðum brotnar á endanum niður í það sem kallað er míkróplast. Plastið berst svo í smærri lífverur eins og lirfur. Þaðan berst það inn í fæðukeðju stærri sjávardýra.

Norskur sjávarlíffræðingur sem rætt er við segir að þetta hafi menn lengi óttast að myndi gerast. Athugaðir voru tíu mismunandi staðir fyrir utan strendur Noregs.

Niðurstaðan er að plastagnir eru dreifðar langt út á haf og finnast í lirfum allt niður á 2000 metra dýpi. Þetta þýðir að líklegast eru menn þegar farnir að innbyrða plast með hádegismatnum þegar sjávarréttir eru á borðum.

Fáum okkar plast í gegnum rækjur, ostrur og bláskel

Samkvæmt niðurstöðunum eru menn að innbyrða plastið, eigið sorp, meðal annars í gegnum rækjur, ostrur og bláskel. Þar að auki eru lirfurnar fæða fyrir margs konar fisk sem við borðum líka. Líffræðingar hafa ekki ennþá slegið því föstu að míkróplast berist í fiskkjöt, en telja líkur á það berist í kjötið og það er einnig hættulegt fyrir mannfólkið.

Fundu minnst af plastögnum norður af Noregi, mest í suðri

Það er munur á magni plastagna í sjó norður af Noregi og lengra í suður. Þannig fannst töluvert meira af plastögnum í sjávarlífverum í sjónum suður af Noregi. Allt að tíu sinnum minna magn fannst í sjónum norðan megin en sunnan megin Noregs. Ástæðan gæti verið ólíkir hafstraumar.

Á myndinni sem fylgir frétt nrk.no hafa plastagnirnar verið upplýstar og sjást vel í þörmum lirfunnar.


Mynd: nrk.no /Dag Altin

No ad