Erlent | 11.November

Sádar aflétta flugbanni í Jemen: Hungursneyð afstýrt?

Varnaðarorð Sameinuðu þjóðanna um að umsátur Sádíaraba um tvo mikilvæga flugvelli í Jemen myndi leiða til hungursdauða milljóna virðist hafa borið árangur. Sádar afléttu umsátrinu og leyfa nú flugumferð um flugvellina að nýju.

Flugvellirnir gegna mikilvægu hlutverki í matvæladreifingu til íbúa landsins sem eru mjög stríðshrjáðir eftir margra ára borgarastríð.

Sádar settu flugbann og hafnbann á landið til að reyna að koma í veg fyrir að vopn bærust frá Íran til uppreisnarmanna Houthi ættflokksins.

Flugbannið var sett á eftir að uppreisnarmenn í Jemen skutu meðaldrægri eldflaug á höfuðborg Sádíarabíu fyrir tveim dögum.

Ráðamenn í Sádíarabíu óttast að Íranar, helstu andstæðingar þeirra, nái fótfestu í Jemen með aðstoð uppreisnarmanna. Svo hatrammar deilur eru milli landanna að stjórnvöld í Ríad hafa talað um að koma sér upp kjarnorkuvopnum til að verjast hugsanlegri árás Írana sem sagðir eru vera nálægt því að geta framleitt kjarnorkusprengju.

No ad