Greinar | 08.November

Donald Trump og fjölmiðlar

Huginn skrifar:

Donald Trump hefur verið í opinberu stríði við fjölmiðla síðan hann hóf kosningabaráttu sína til forsetaembættis. Í fyrstu virðast ásakanir hans vera fjarstæðukenndar en eftir því sem tíminn líður og áhorfandinn fær nánari skilning á orðræðinni, þá skýrist heldur betur að eins og flestir vita, þá eru fjölmiðlar ekki hlutlausir og hafa aldrei verið. Verra er með íslenska fjölmiðla, að þeir apa upp erlendan fréttaflutning án athugasemda eða nánari skoðunar. Þetta er slæmt, því að það sýnir að þeir geta ekki tekið rökstudda afstöðu til fréttaveitunnar sem þeir sækja fréttir sínar til. Fávísi eða dómgreinarleysi er slæm afsökun og verri en meðvituð afstaða.

Þetta mátti sjá á blaðamannafundi Donalds Trumps eftir kosningarnar en þar ræddi hann við blaðamenn; hann talaði við 35 fjölmiðlamenn og svaraði 68 spurningum á einni og hálfri klukkustund. Fréttastofa Stöðvar tvö beindi nánast eingöngu athygli sinni að orrahríð forsetans við fréttamann CNN en lét alveg vera að segja frá út á hvað fundurinn gekk eða fjallaði. Fréttastofa RÚV var betri en hún greindi bæði frá innihaldi fundarins en einnig frá deilunni milli fjölmiðlamannsins og forseta.

Inntak ræðu Trumps á blaðamannafundinum var boðuð sátt við Demókrata, hætta tvípóliersa landið og fleira en sumir fjölmiðlamanna á staðnum, sem hafa átt í langri deilu við Donald Trump vildu frekar bauna á forsetann um önnur mál. Þeir komu ekki með spurningar, heldur fullyrðingar, sem reiddi forsetann til reiði og fundurinn varð súr fyrir vikið.

Það kom því ekki á óvart að fréttamaður CNN, Jim Acosta, var hvatamaður að uppþotinu. Á fundinum spurði Acosta ekki spurninga - hann kom með ásakanir eins heyra má ef horft er á blaðamannafundinn.

Hann sagði: ,,Mig langar að skora á þig," eftir að Trump bauð honum orðið. Trump áttaði sig á að hann hefði gert mistök og muldraði: ,,Hér byrjum við á ný" og Acosta olli ekki vonbrigðum.

Hann krafðist þess að forsetinn hætti að nota hugtakið ,,innrás“ vegna hælisleitendalestarinnar sem nú stefnir til Bandaríkjanna, því að ,,hælisleitendalest Mið-Ameríkumanna sé ekki innrás því að þeir væru hundruð kílómetra í burtu.“

Hann sum sé kom ekki með spurningu heldur fullyrðingu og það reiddi Trump til reiði sem sagði á móti: ,,Í hreinskilni sagt, þá held ég að þú ættir að láta mig stjórna landinu en þú getur rekið CNN.“ Svo hófst rifrildið og endaði með því að Trump kallaði hann dónalegan og slæma manneskju og CNN ætti að skammast sín fyrir að hafa hann innanborðs.

Þetta hefði átt að vera nóg fyrir báða aðila, Acosta fékk athygli og frétt og Trump fréttamat næstu daga. Aðrir fréttamenn vildu komast að og réttu upp hendi en Acosta neitaði að láta hljóðnemann af hendi.

Forsetinn var greinilega reiður og steig í burtu frá ræðupontunni eins og hann ætlaði að yfirgefa herbergið, benti á hann og sagði með þjósti: ,,Þetta er nóg, það er nóg komið. Settu niður hljóðnemann."

Að lokum settist Acosta niður, en stóð þá jafnharðan upp til að halda fram annarri fullyrðingu og truflaði annan blaðamann í miðjum klíðum. Þessi blaðamaður, frá NBC, lofaði Acosta og tók upp ásakanir með því að koma með eigin ásakanir dulbúnar sem spurningar. Hann minntist á árásir Trumps á Demókrata og ,,spurði" forsetann: Af hverju ert ,,þú að egna Bandaríkjamönnum upp á móti hvor öðrum?" Trump reyndi að svara en átti í erfiðleikum því að fjölmiðlamaðurinn spurði ekki raunverulega spurninga. Hann vildi greinilega líka koma með ásakanir í beinni útsetningu.

Í fjölmiðlafræði er ungu fjölmiðlafólki kennt að vera ekki sagan sjálf en greinilegt er að umsnúningur hefur orðið á þessum skilningi. Ljóst er að það er eitthvað meira í gangi hér en óvönduð blaðamennska og má færa rök fyrir að hér sé um hreint og beint persónulegt hatur í gangi.

Já, það er líklega rétt skýring að flestir blaðamenn hallast til vinstri og hlutdrægni þeirra er mikil. Það hefur verið alkunna í langan tíma, en pólitísk hlutdrægni er ófullnægjandi skýring á hegðun Jim Acostas og hans líkum. Þeir hreinlega hata Trump. Það er ekkert faglegt við það.

Svona hegðun hefði verið óhugsandi í tíð Baracks Obama en hann fékk að halda langar ræður við einni spurningu og var ótruflaður í kannski 10 – 15 mínútur. Svo á við aðra álíka pólitíkusa og Obama. Stjórnmálafréttamenn myndu aldrei þora að saka þá opinberlega um neitt, halda einhverju fram við þá eða trufla þá. Jafnvel þótt um mikla efasemdamenn væri að ræða, þá sýndu þeir virðingu í orði.

Margir í fjölmiðlaheiminum gætu hafa fundist Trump hrokafullur. Þeir kunna að hafa fundið fyrir gremju hvernig hann lítur niður á fjölmiðla og skautað hratt yfir erfiðar spurningar en flestir hefðu ekki hagað sér eins fjölmiðlamaðurinn frá CNN.

Hvíta húss passinn veitir ekki alhliða rétt. Það eru óbeinar væntingar um rétta hegðun á blaðamannafundum, og ákvörðun Hvíta hússins um afturköllun Hvíta húss passa Acosta er skiljanleg í því ljósi.