Greinar | 03.July

ESB: Risi á brauðfótum


Huginn skrifar:

Evrópusambandssinnar hafa með skelfingu fylgst með þróuninni innan Evrópusambandsins enda virðist bresta í öllum stoðum sambandsins. Hver höndin er uppi á móti annarri í öllum málum að því virðist.

Ef við lítum fyrst á samstöðuna í sambandinu, þá eru Bretar á hraðleið út með Brexit og ekkert virðist stöðva þá þróun. Þetta er í raun klofningur og hann er risastór, því að Bretland er stórríki á evrópskan mælikvarða. Þetta gefur fordæmisgildi fyrir önnur óánægjuríki og þau eru mörg.

Klofningur er innan sambandsins og virðist það skiptast í þrjá hluta eftir hagsmunum. Annars vegar er baráttan um leiðir til að stemma stigum við komu hælisleitanda og þar skiptist ESB í Vestur-Evrópu, með öðrum orðum Þýskaland og Frakkland, og Austur-Evrópuríki og Suður-Evrópuríki hins vegar sem vilja gera eitthvað í málinu annað en að eiga fundi.

Svo er undirliggjandi ágreiningur milli Suður-Evrópu og Vestur-Evrópu (lesist Þýskaland) vegna fjármálakrísunnar sem hefur verið undirliggjandi í meira en einn áratug. Það mál er ekki í sviðsljósinu en undir niðri kraumar og getur það leitt til að evran hverfi úr sögunni í suðurhlutanum..

Fyrir utan Brexit er ágreiningur forystu ESB þessa daganna mestur við Pólland og Ungverjaland og nú hafa Ítalía og Austurríki bæst við eftir kosningar en málið er að sjálfsögðu deilur um flótta- og hælisleitendur. Vegna vangetu sambandsins til að taka raunhæfar ákvarðanir hafa þau síðarnefndu tekið upp á því hjá sjálfum sér að búa til nýtt járntjald á landamærum sambandsins. Pirringur er vegna þessa og þess vegna virðast ráðamenn ESB skeyta skapi sínu á því að skipta sér af innanríkismálum Póllands með freklegum hætti en nú vill það hafa hönd í bagga með starfsaldri hæstaréttadómara í Póllandi! Skemmst er að minnast hótana um refsingar vegna neitunar þessara ríkja við móttöku kvótaflóttamanna.

Nýverið ákváðu níu Evrópusambandsríki að stofna sameiginlegt herlið og ætla mætti að það sé merki um samstöðu en svo er ekki. Í sambandinu eru 28 ríki og því er langt í frá að hér sé verið að stofna til Evrópuhers og athygli vekur að ríki eins og Pólland kjósa að gera tvíhliða varnarsamninga við stóra bróðir í Bandaríkjunum. Enn veikjast varnirnar þegar Bretland hverfur á braut.

Árið 2004 leituðu Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland í skjól ESB og árið 2007 voru það Búlgaría og Rúmenía. Svo virðist vera að það hafi runnið tvær grímur á margar þessara þjóða sem flestar eru í Austur-Evrópu og vonuðust eftir skjóli frá Rússlandi, að þær séu í raun að leita skjóls hjá brauðrisa sem virðist vera að detta á hausinn með látum. Stendur steinn yfir steini í Evrópusambandinu í dag?