Greinar | 14.March

Þrískiptingu ríkisvaldsins á Íslandi í molum

Huginn skrifar:

Það er alveg ljóst, í ljósi klúðursins í kringum stofnun Landsréttarins og skipun dómara í hann, að verksvið hinna þriggja þátta fulltrúalýðræðisins, dómsvaldsins, löggjafavaldsins og framkvæmdarvaldsins, er á reiki og hefur alltaf verið það síðan Ísland varð fullvalda ríki 1918. Þá var Ísland viðurkennt frjálst og fullvalda ríki með eigið þing og eigin ríkisstjórn.

En Íslendingum hefur ekki enn tekist að aðgreina þessa þrjá valdapóla, sem samkvæmt kenningunni eiga að vega upp á móti hvor öðrum og veita aðhald. Aðskilnaðurinn á að sjá til þess að einn af þessum þremur valdapólum, segjum framkvæmdarvaldið, vaði ekki yfir hina tvo.

Það er ljóst aðgreiningurinn er óskýr.Það er til að mynda fjarstæða að framkvæmdarvaldið – ríkisstjórn Íslands, sitji við öndvegi á Alþingi Íslendinga og taki þátt í lagasetningu. Hún, lagasetningin, á að varða veginn fram á við og vera löggjöf sem er óháð hvaða ríkisstjórn situr við völd. Vönduð lög geta verið gild í árhundruð og því er mikilvægt að þau séu vönduð og án pólitískra markmiða ríkjandi ríkisstjórnar.

Ríkisstjórnin, á að vera eins og framkvæmdaraðili innan fyrirtækis, og sjá um daglega rekstur ríkisins en ekki skipta sér af löggjöf að öðru leyti en að leggja fram fjárlög fyrir þingið. Sjá má þessa aðgreiningu með skýrari hætti í Bandaríkjunum í baráttunni um landamæramúrinn en bæði fulltrúadeild sem og öldungadeild Bandaríkjaþings, geta stöðvað áform ríkisstjórnar Donalds Trumps, og það var gert.Hann fór reyndar fjallabaksleið til að snúa á þingið með setningu neyðarlaga (sem hann gerir sem æðsti yfirmaður herafla Bandaríkjanna), en eftir sem áður, eru völd forseta Bandaríkjanna settar skorður.

Hvernig er þrískiptingu ríkisvaldsins varið á Íslandi?

Talað er um að stjórnskipan lýðræðisríkis geti verið á eftirfarandi hátt: forsetaræði, þingræði og forsetaþingræði. Lítum fyrst á forsetaræðið, en slík stjórnskipan er við lýði í Bandaríkjunum, Finnlandi og Frakklandi.Í slíku fyrirkomulagi er kosið í tveimur aðgreinum kosningum, til þings og forseta (sem þá skipar ríkisstjórn) og þar af leiðandi draga báðir valdapólarnir völd sín beint frá almenningi. Valdatími hvorra greinar er tímabundinn og hvor aðilinn getur komið hinum frá völd með eðlilegum hætti.Löggjafavaldið býr til lög, þar á meðal fjárlög, og því þurfa þessir valdaaðilar að vinna saman. Forsetinn hins vegar getur mótað stefnu með forsetatilskipun, ígildis þess sem ráðherrar á Íslandi gera með reglugerðasetningu sinni. Þessi skipan þýðir að löggjafavaldið og framkvæmdarvaldið eru algjörlega aðskildir valdapólar en þeir verða að vinna saman, a.m.k. hvað varðar fjárlög.

Á Íslandi er þingræði en það fyrirkomulag hefur í för með sér að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið er mun háðara hvoru öðru. Helsti gallinn við þetta fyrirkomulag er að einungis löggjafarvaldið er kosið beinni kosningu en ríkisstjórnin þiggja svo umboð sitt frá þinginu. Þetta er andlýðræðislegt, því kjósendur hafa ekkert um það að segja, hvers konar ríkisstjórn sest að völdum og út úr þessu fyrirkomulag geta komið óskapningur, líkt og núverandi ríkisstjórn sem spannar allt litróf stjórnmálaflokka. Kjósandinn sem kýs til hægri eða vinstri, fær allt annan í hendurnar og vegna þess að gjör ólíkir flokkar vinna saman, þá er ríkisstjórnarsamstarfið valt í sessi eins og sjá mátti þegar dómsmálaráðherra vék frá völdum tímabundið, líklega til þess að koma í veg fyrir fall ríkisstjórnarinnar. Þingið getur fellt ríkisstjórnina með vantraustsyfirlýsingu hvenær sem er og oftast þingið sömuleiðis. Og sömuleiðis getur forsætisráðherrann kalla til kosninga nánast hvenær sem er.

Þriðja stjórnskipunar fyrirkomulagið er kallað forsetaþingræði en þá er forsetinn og löggjafarþingið kosið á aðgreindan hátt rétt eins og í forsetaræðisríkjum en forsetinn hefur vald til að leysa upp þing. Í forsetaþingræði má forsetinn ráða ríkisstjórn eins og í forsetaræðisríkjum en verður að fá samþykki þingsins, eins og í þingræðisríkjum.Þannig má segja að þingflokkur sem vill ráða alfarið stefnumótina og löggjöfina, þarf að ná völdum í báðum valdagreinunum. Með öðrum orðum, er forsetaþingræði blönduð stjórnskipun sem hefur í för með sér að forysta framkvæmdarvaldsins er tvískipt, annars vegar forsetinn sem skipar forsætisráðherrann en valdið er einnig í höndum forsætisráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Mismunandi útfærslur eru til af þessari stjórnskipan.

Á Íslandi er þingræði eins og áður sagði en samkvæmt stjórnarskránni fara forseti og Alþingi með löggjafarvaldið, forsætisráðherra ásamt ríkisstjórn hans með framkvæmdarvaldið og dómstólar með dómsvaldið.

Vald forseta Íslands er takmarkað og er aðallega táknrænt en samt hefur hann í hönd með bagga með bæði löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, því að hann hefur umsjón með myndun ríkisstjórnar og þar sem aðgreiningur löggjafarvalds og framkvæmdarvalds á Íslandi er lítill (ríkisstjórnin hefur sæti á Alþingi og getur kosið um lög), þá er forsetinn með a.m.k. táknræn völd yfir báðum valdagreinunum en samt segir í stjórnarskránni að forsetinn sé ábyrgðarlaus um störf sín og lætur stjórnvöld framkvæma vald sitt.

Raunin hefur orðið sú að hér ríkir ,,ríkisstjórnarræði“ á Alþingi, því að stærsti eða stærstu flokkarnir ráða för á þingi og þeir skipa ríkisstjórnina.Ríkisstjórnin á Alþingi nýtur þar stuðning þingmanna sinna sem eru ekki í ríkisstjórn. Venjan er að lögin koma flest frá ríkisstjórnarþingmönnum en fá frá stjórnarandstöðu eða þingmönnum ríkisstjórnarinnar sem ekki eru í ríkisstjórn. Þetta skerðir sjálfstæði Alþingis sem sjálfstæðrar valdagreinar.

Fram til 1989 voru dómstólar í héraði lítt sjálfstæðir á Íslandi. Sýslumenn landsins voru í senn yfirmenn löggæslu og höfðu með höndum víðtækt framkvæmdavald, bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Þeir voru jafnframt dómarar í héraði. Þessu var breytt með íhlutun Evrópusambandsins en þar gekk dómur sem hreinlega bannaði þetta fyrirkomulag.

Eina valdagreinin, sem telja megi vera óháða (síðan 1989) er dómsvaldið en það hefur meðal annars sannað það með því að dæma að lög stangast á við stjórnarskrá og að stjórnvöld fari ekki að lögum. En þarna liggur líka pottur brotinn.Það er skipan dómara í embætti.

Dómur mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu er athyglisverður á margan hátt. Í fyrsta lagi afskipti hans af innri skipan stjórnkerfisins á Íslandi sem telja má vera brot á fullveldisrétti Íslandi en um leið er hann eins og barnið sem bendir á nýju föt keisarans, og segir að hann er í raun alls nakinn og allir sem koma þar að, horfa bara á og gera ekki neitt.Allir vita að stjórnskipan Ísland er meingölluð en ekkert er gert. Það þarf útlenskt ,,barn“ til að benda á villuna sem enginn þorir á taka á.

Í Frakklandi hefur lýðveldið verið endurreist mörgum sinnum.Íslenska lýðveldið er ekki það sama og það var 1918 og 1944.Það þarf að endurskoða stjórnskipan landsins og jafnvel að bæta stjórnarskránna.

Í þessu tiltekna máli - Landsréttarmálinu, liggur ábyrgðin ekki bara hjá dómsmálaráðherra sem hluti af framkvæmdarvaldinu, heldur einnig hjá Alþingi sem bjó illa um löggjafarpakkann fyrir dómvaldslögin; hjá forseta Íslands sem skrifaði undir nýju löggjöfina án athugasemda og hann hefði átt að grandskoða, því að þarna er um grundvallarbreytingu að ræða á dómsvaldinu en ábyrgðin er ekki síst hjá dómsvaldinu sem tók á móti þessum lögum án þess að æmta eða stynja.Allir þurfa því að líta í eigin barm og leysa málið í sameiningu.