Greinar | 17.January

Trump íhugar úrsögn úr NATÓ: Eru Íslendingar með plan b?


Huginn skrifar:

MSNBC og fleiri fjölmiðlar hafa birt fréttir af að Donald Trump íhugi alvarlega að draga Bandaríkin einhliða úr Atlantshafsbandalaginu (NATÓ). Frægt var þegar hann mætti á fund Nató - ríkja um árið en þar sakaði hann flest bandalagsríkin um að leggja ekki fram sinn skerf af landsframleiðslu í varnarmál. Hann kallar bandalagið ,,úrelt“.

Nú hefur málið komið upp á yfirborðið á ný og samkvæmt heimildum háttsettra embættismanna hefur Trump tekið málið upp reglulega síðastliðin ár og rætt við ráðgjafa sína um möguleikann á að segja upp varnarsamningnum einhliða. James Mattis fyrrum varnamálaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trumps og John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, einnig fyrrum starfsmaður Trumps, komu í veg fyrir að Trump léti verða af því að segja upp samninginum.

Opinberlega hefur Trump sagt að NATÓ væri ,,mikilvægt“ en það væri ósanngjarnt að aðeins 5 af 28 meðlimum bandalagsins væru að borga umsamið framlag sitt til bandalagsins og hefur verið miðað við 2% af landsframleiðslu. Tölur sem NATÓ hefur sjálft gefið út fyrir síðasta ár, staðfesta ásakanir Trumps.

Þetta eru alvarlegar fréttir og sérstaklega fyrir Íslendinga, því að landið er herlaust og það reiðir varnir sínar á þátttöku sína í NATÓ. Hvað ætla Íslendingar að gera þá ef varnarbandalagið leysist upp og Rússar stefna kafbátum og herflugvélum upp að landsteinum sem aldrei fyrr? Og hvað með hryðjuverkavarnir, sjá hryðjuverkamenn ekki þarna auðvelt skotmark án skjólveggjar Bandaríkjahers? Eru íslensk stjórnvöld með plan B í þessari stöðu?