Greinar | 21.March

Um skólaskyldu og fræðsluskyldu

Huginn skrifar:

Stjórnvöld vinna nú við að skoða kafla aðal­nám­skrár grunn­skóla þar sem fjallað er um und­anþágur frá skóla­vist. Menntamálaráðherra finnst foreldrar hafa of mikið rými til að taka börnin úr skólastarfi.

Elísa Elíasdóttir háskólanemi er með athyglisvert sjónarhorn á þetta mál og segir: ,,Ég vona innilega að málið verðið skoðað frá öllum hliðum og opnað verði fyrir meira frelsi í menntamálum. Sérstaklega hvað varðar skólaskyldu og skólavist.

Hún segir jafnframt að: ,,Ráðherra segir að hún líti til nágrannalandanna þar sem reglugerðir varðandi skólaskyldu eru strangari en hér. Það getur verið að reglurnar varðandi frí úr skóla séu rýmri en það má ekki gleyma því að í t.d. Danmörku, Noregi, og Bretlandi er ekki skólaskylda! Er litið til nágrannalandanna eftir hentisemi?“

Hún bendir réttilega á að það er grundvallarmunur á skólaskyldu og fræðsluskyldu. Í sumum löndum, eins og í Þýskalandi og Svíþjóð er skólaskylda en það er fræðsluskylda t.d. í Danmörku, Noregi, Bretlandi og Austurríki.

Allir geta verið sammála um að börn undir ákveðnum aldri eiga að vera í námi og það eigi að vera fræðsluskylda en spurningin er sígild, á al-umliggjandi ríkisvald hafa vald yfir persónufrelsi einstaklingsins og loka á þær leiðir sem foreldrar kunna að leita til að tryggja börnum sínum þá menntun sem þeir telja vera besta?

Eiga að vera ríkisskólar eða sveitafélagsskóla sem foreldrar eiga eingöngu að leita til með menntun barna sinna eða eiga þeir að eiga valkost á að velja til dæmis sérhæfðan einkaskóla, fjarnám á netinu, heimakennsla með foreldri, stærri heimakennsluhópa eða jafnvel það að vera með einkakennara ef að fjölskyldan ferðast mikið af einhverjum ástæðum?

Elísa setur spurningamerki við er að gera reglurnar um skólavist ennþá strangari ,,...þegar íslenskir foreldrar hafa enga aðra valkosti en að vista ung börn sín í margar klukkustundir á dag inni á stofnun.“ Benda má á að skólahald hefur lengst til muna og nær nú inn á sumarmánuðinn júní og byrjað er í síðustu viku ágústmánaðar. Skóladagurinn hefur lengst en spyrja má hvort gæði námsins hafi aukist.

Er ekki verið að tala um sveigjanleika í menntun á góðum dögum og um opinn skóla? Þar sem allir hafa rétt á að stunda nám sitt í hverfisskólanum sínum en hvers vegna mega ekki foreldrar þá ekki ráða meira yfir sínu einkalífi, þ.m.t. menntun barna sinna en er í dag?

Minnast má farskólanna sem voru í sveitum landsins á fyrri hluta 20. aldar af illri nauðsyn en þá héldu sveitaheimilin ,,heimaskóla“; farkennari kom í hann sem og börnin í nágrenninu og kennt var á hverjum stað í nokkra mánuði. Svo var fær sig um set. Þetta sveitafólk, sem fékk takmarkaða kennslu í fjögur ár, frá 10 ára aldri til 14 ára, kom út í samfélagið margt vel lesið og skrifandi og sumir komust alla leið í doktorsnám og fengu doktorsgráðu. ,,Námsgæðin“ voru greinilega mikil þótt kennslumagnið hafi verið lítið.

Ef til vill er nýtni á tíma barna betri í einkakennslu og einkaskóla en í opinberum skólum, en ljóst er að mikill tími fer til spillist á hverjum degi hjá skólabörnunum af ýmsum ástæðum. Má þar nefna að bekkir eru of stórir og kennarinn hefur minni tíma til að sinna einstaklinginum og hinn opni skóli, sem átti að mæta þörfum allra nemenda, hefur haft sína galla en sá helsti er að stoðþjónustan sem átti að fylgja með, hefur verið í skötulíki og börn með sérþarfir hafa ekki fengið þá þjónustu sem þau eiga skilið. Þau verða oft hornreka í kerfinu.

Gæti einkakennsla eða sérhæfður einkaskóli mætt betur þörfum þeirra? Hvað með afburðanemendur sem þurfa að sætta sig við stagla við sama námsefni og bekkurinn sem þeir eru í, eingöngu vegna þess engar leiðir eru til að kenna þeim hraðar eða með erfiðara námsefni?

Menntamálaráðherra mætti líta meira til þess að opna fyrir valkosti, í stað þess að þrengja kost foreldranna. Ríkið á ekki börnin og þau eru eftir sem áður í umsjá foreldranna, sem gátu þau af frjálsum vilja í heiminn og því mætti segja að báðir aðilar þurfi að vinna betur saman að velferð barnanna.