Greinar | 31.January

Varnar og öryggismál

Kjartan Örn Kjartansson fyrrverandi forstjóri skrifar:

Það er ekki eins og með spurninguna um eggið eða hænuna þegar kemur að valinu um öryggi mannsins eða að fá mat á neyðarstundu. Það er alveg víst að öryggið kemur fyrst og fæðuöflun eða þá eitthvað annað kemur þar á eftir. Án öryggis og frelsis getum við nefnilega ekki séð okkur farborða né gert nokkuð annað.

Varnarmál

Saga mannkynsins er ein samfelld ófriðarsaga og ekki síður á okkar tímum, en mjög víða eru nú háð stríð og átök. Ég hef alltaf undrast andúð sumra á hugsuninni um að verja sig og sína og að vilja þannig ekki tryggja sem best eigið öryggi og öryggi og frelsi fjölskyldu sinnar. Það er auðvitað barnaleg óskhyggja, hugsanavilla eða þráhyggja, að Ísland sé svo einstakt, að það eitt allra ríkja veraldar þurfi ekki að gæta að varnar og öryggismálum sínum. Upplýsingar um síaukna alþjóðlega glæpastarfsemi, ófyrirséðar og skyndilegar og hræðilegar árásir hryðjuverkamanna og hópa og hverfult ástand og vaxandi ógnir í heiminum ættu að kenna annað, þótt við séum sjálf friðsamt eyland. Ísland er í NATO og með sérstakan varnarsamning við Bandaríki Norður Ameríku og hefur þetta tvennt séð til þess að við höfum hingað til mátt búa hér í öryggi fyrir utanaðkomandi hættu frá erlendum ríkjum. Mér finnst það óðs manns æði að ætla að segja okkur frá þessum undirstöðum öryggis okkar eins og rangsýnir menn vilja án þess að hafa getað greint frá því hvað koma eigi í staðinn. Eða vill þetta fólk að við séum berskjölduð með skoðanahroka og kreddur einar að vopni til varna? Auðvitað á ekki að hlusta slíka óábyrga lottóstefnu vegna landsins okkar og okkur öllum og þess í stað að styðja og rækta samböndin við NATO og Bandaríkin.

En er þetta nóg? Núna eru ekki varnarliðssveitir lengur hér á landi og það tekur talsverðan tíma að fá hjálp frá Bandríkjunum eða þá Evrópu í einhverju framtíðar neyðarástandi, sem að við ráðum ekki sjálf við. Það tekur t..a.m. ekki langan tíma fyrir óvæntar, fámennar en velþjálfaðar liðssveitir að gera hér mikinn óskunda, rænandi og ruplandi, ráðast á sendiráð erlendra ríkja, sem okkur er er skylt að vernda eða jafnvel að steypa stjórn landsins og taka hér allt yfir ef út í það er farið. Og slíkt gæti þess vegna sprottið innanlandsfrá. Vill fólk taka þá áhættu að slíkt sé fjarlægt og muni aldrei gerast aftur hér á landi, en lögreglan er afar fámenn og mjög illa eða alls ekki undir slíkt búin, sem að er auðvitað óviðunandi, en verkefni hennar er líka aðeins löggæsla og innra öryggi landsins, en ekki landvarnir. Ég er ekki einn af þeim, enda finnst mér það óraunsæ von eða óábyrgir draumórar og vil hafa meiri vissu um að við gætum hrint slíku af höndum okkar.

Íslenskar varnarsveitir

Mér finnst það sjálfsagt að Ísland taki önnur smærri lönd eins og Sviss, Noreg, Danmörku og Finnland sér til fyrirmyndar. Þar eru allir heilbrigðir borgarar í þegnskylduvarnarsveitum landanna einhvern tíma á ævinni eða lengsta part ævinnar og finnst annað óhugsandi, en löndin hafa svo hvert fyrir sig sinn háttinn á að öðru leyti eftir þörfum hvers ríkis og þar eru allir stoltir og glaðir yfir að styðja föðurlandið og hljóta mikla virðingu og þakklæti fyrir. Íslenskar björgunarsveitir, sem að reyndar eru mannaðar sjálfboðaliðum, eru einmitt dáðar af öllum almenningi og ég tek þær sem dæmi um hvað jákvæður samtakamáttur fær áorkað.

Með utanaðkomandi ráðgjöf vinalanda er hægt og læra að koma upp hér heimavarnarsveitum á lagalegum grunni herskipulags. Þannig mætti fyrir rest koma upp liði um land allt, sem hægt væri að kalla til með litlum sem engum fyrirvara þegar þörf kræfi einmitt eins og gert er í björgunarmálum.

Ég sé fyrir mér að hér yrði komið á laggirnar fjórum deildum íslenska varnarkerfisins:

Sjóvarnarliðið. Hér yrði landhelgisgæslan að nokkurs konar sjóher og henni veitt vald til þess að sjá um sjóvarnir Íslands og þá í samvinnu við NATO og Bandaríkin. Vopna þyrfti skipin nútíma búnaði, sem að bæði hefði fælingarmátt og einhverja getu til þess að verja sig og okkur þótt takmarkað væri.

Landvarnarliðið. Þar væri eins og sjóvarnarliðið kjarnaskipað atvinnu og fagmönnum, en almennir borgarar væru uppistaðan. Smám saman mætti þjálfa upp góðan fjölda til þess að geta kallað til, en venjulega þyrfti væntanlega ekki að hafa stóran hóp í þjálfun og vaktandi öryggisgæslu á hverjum tíma.

Loftvarnarliðið. Ísland hefur ekki fjárhagslega burði til þess að reka hér nútíma flugher. Einhverjar loftvarnir frá landi gætum við hins vegar og nauðsynlega haft t.a.m. í kring um flugvelli og radarstöðvar og stærri bæjarfélög. Við gætum einnig verið góðri í samvinnu við vinveitt ríki og meira en nú er um lofthelgisgæslu m.a. með því að bjóða sem flestum upp á æfingaaðstöðu hér, jafnvel gegn gjaldi sumum hverjum, aðstöðu sem er þegar til staðar. Þá væri það sjálfsagt að allt radarkerfi landsins væri undir stjórn loftvarnarliðsins.

Almannavarnir. Þær ættu að vera byggðar áfram á óbreyttu liðsfólki og sjálfboðaliðum eins og nú er og sem hefur gefist svo vel, en að falla undir væntanlegt heimavarnarmálaráðuneyti svo samhæfa megi allar aðgerðir eins og þurfa þykir á hverjum tíma.

Innra öryggi

Ég hef þegar lagt fram skoðanir mínar að við eigum að segja okkur úr Schengen og taka upp eftirlit með landamærum okkar bæði í höfnum og á flugvöllum landsins. Niðurskurði löggæslunnar verður að hætta, enda er komið að hættu, þol og getumörkum hennar samkvæmt t.d. Landssambandi lögreglumanna. Fjölga þarf til muna í lögreglunni og endurbyggja og styrkja hana og útbúa eins og hún sjálf telur þörf fyrir. Eðlilega þarf að koma á öflugri greiningardeild til þess að fylgjast með hugsanlegum ógnum og glæpum, en án góðra upplýsinga er erfitt að taka skynsamlegar og árangursríkar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir lögbrot og að verja landið og almenning og eigur hans. Jafnframt þarf að koma upp öflugri tölvudeild, sem að m.a. sér um varnir tölvukerfa ríkisins og gegn hugsanlegum árásum á þau, en slíkt er sífellt að aukast.

Almannaþjónusta og agi

Íslendingar eru gjarnan afar sjálfstæðir einstaklinar og er það í sjálfu sér vel. Hins vegar verður ekki alltaf sama sagt um virðingu þeirra við aðra, aga og hlýðni. Við þekkjum öll vandamálin einkum kannski vegna yngra fólks, sem að lítið virðir, ruslar, veggjakrotar, skemmir og hagar sér t.d. eins og villimenn í miðbæjum um helgar. Þetta verður auðvitað að stöðva og ég held að þegnskylduvinna mundi hjálpa mjög í þessu samhengi og er ég þá með skylduveru allra í varnarliðsþjónustu í huga. Þar lærðu allir að gegna, að virða yfirboðara sína, þá sem kunna meira og vita betur, lærðu að vinna saman að sameiginlegum markmiðum og þegar upp er staðið öðlast meiri sjálfsaga, ást á landinu og og virðingu við það og samheldni með samborgurum sínum. Þótt ekki væri nema vegna þessara markmiða, þá væri stofnun varnarliðs landsins mjög þess virði.

Fjármögnun

Ég veit það með reglulegum lestri um varnarmál að mörg lönd nálægt okkur eru með mikið af alls kyns þungvarnarbúnaði, sem að þau nefna “surplus to requirements” eða að þau passi þörfum viðkomandi lands ekki lengur, en sem að eru samt fullkomlega góð tæki og tól miðað við smávaxnar þarfir okkar. Einnig hafa mörg ríki verið að endurnýja léttvopnabúnað sinn, en það sem að skilið er eftir mundi hins vegar nægja okkur um langa tíð. Þessi varnartæki mætti jafnvel fá gefins frá vinveittum ríkjum svo að kostnaður yrði í lágmarki hvað það varðar. Gera þyrfti og vinnuveitendum það skylt og lögleiða að leyfa þeim, sem að sinna varnarliðsþjónustunni, að gera það án nokkurra afleiðinga heldur styðja það, en vinnuveitendur björgunarfólks hafa þegar sýnt skilning sinn á mikilvægi starfa þess.

Niðurlag

Ég geri mér grein fyrir að sumir munu rifna í rass niður yfir þessum hugmyndum. Rétttrúnaðarfrasar og ég veit ekki hvað mun væntanlega hljóma úr þeim áttum. En eru það ekki einmitt þessar raddir, sem að eru frekastar og vilja hafa allt eftir sínu öfga og óábyrga höfði og sem eru hluti af hættum okkar? Þetta fólk virðist ekki vilja að alþýðan vinni saman og skapi sér hér öruggt og gott samfélag þar sem að samvinna og gagnkvæm virðing fyrir öllu og öllum ríkir. Með því að hafa hér fámennar en vel búnar og þjálfaðar sveitir þá er einnig von til þess að með því skapist fælingarmáttur, sem að einn og sér væri einnig afar þýðingarmikill. Ég bið þig lesandi góður að hugleiða þessar hugmyndir öfga og fordómalaust. Þær eru settar fram þér, þjóðinni og landinu til heilla.