Innlent | 11.May

Bænaköll frá mosku í Svíþjóð: Þjóðfylking segist ætla að koma í veg fyrir slíkt á Íslandi

Lögregluyfirvöld í bænum Vaxjö í Svíþjóð hafa gefið mosku í bænum leyfi til að kalla til bæna með hátölurum. Málið hefur vakið deilur í landinu. Bænaköllin heyrast í 3 mínútur og 45 sekúndur milli klukkan 13 og 13.03 í sumar. Anna Tenje bæjarráðsfulltrúi í Vaxjö hefur beðið bæjaryfirvöld að hlutast til um málið og draga leyfið til baka vegna þess að málið muni ekki leiða til samheldni í samfélaginu heldur ýta undir skiptingu samfélagsins. Fyrir þessa nálgun hefur bæjarfulltrúinn fengið ávítur frá Amnesty International. Þessi tiltekni söfnuður múslíma í Vaxjö hefur áður verið í fréttum í Svíþjóð. Söfnuðurinn rekur trúarskóla í bænum þar sem börnunum er skipt upp eftir kyni af trúarlegum ástæðum, samkvæmt Kóraninum. Síðast komst söfnuðurinn í fréttir vegna þess að stúlkur í trúarskóla safnaðarins máttu ekki ferðast í skólabílnum með drengjum eða var gert að fara inn að aftan og eftir að drengir höfðu komið sér fyrir í bílnum að framan.

Málið er athyglisvert að því leiti að nú eru sveitarstjórnarkosningar framundan á Íslandi og einn flokkur hefur birt myndband þar sem því er heitið að komið verði í veg fyrir að söfnuður múslíma í Öskjuhlíð fái að reisa bænakallturn við safnaðarhúsið. Í innslagi í myndbandi sem birt er á fésbókarsíðu Íslensku þjóðfylkingarinnar og heimasíðu flokksins x-e.is segir formaður flokksins sem skipar fyrsta sæti lista flokksins í Reykjavík:

„Hér á að byggja kallturn. Það ætlar Íslenska þjóðfylkingin að koma í veg fyrir.“