Innlent | 08.July

Norskir, sænskir, danskir eða finnskir lögreglumenn á götum Reykjavíkur?

Dómsmálaráðherrar Norðurlandanna hafa skrifað undir samning um nánari lögreglusamvinnu milli landanna. Samkvæmt umfjöllun NRK felur samningurinn í sér að lögreglumenn frá Svíþjóð geta farið í aðgerðir í Noregi og sinnt eftirliti á götum Noregs. Það sama gildir um norska lögreglu í Svíþjóð. Tekið er fram að ekki er ætlast til að til dæmis sænsk lögregla komi í staðin fyrir norska lögreglu staðbundið eða varanlega. Aðgerðir eða eftirlit verða alltaf í samvinnu við lögregluyfirvöld viðkomandi lands. Hins vegar er ekki annað að skilja á umfjöllun um samninginn en að löggæslumenn á Norðurlöndum muni hafa sömu heimildir til valdbeitingar og innlend löggæsla í hverju landi fyrir sig.

Engin tilkynning hefur borist frá íslenska dómmálaráðuneytinu svo skinna.is viti til og ekki er að sjá í fljótu bragði umfjöllun um samninginn á heimasíðu ráðuneytisins.

Það var norska lögreglusambandið sem fyrst tilkynnti um samninginn samkvæmt frétt NRK og segir í fréttinni að ...„samningurinn gangi út á að lögregla í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Íslandi og Finnlandi geti stutt hver aðra í meira almennum lögregluaðgerðum.“

Norska lögreglusambandið hefur áhyggjur af samningum að því leiti að með samningnum muni ríkisstjórnir landana svíkja loforð um frekari fjárútlát til löggæslunnar og fjölgunar lögreglumanna sem nú þegar kvarta undan álagi vegna skorts á lögreglumönnum. Einnig bendir sambandið á að þjálfum lögreglumanna sé mjög mismunandi eftir löndum. Þannig fá danskir lögreglumenn sex mánaða þjálfun meðan norskir fái þriggja ára þjálfun. Sambandið spyr líka hvort lögreglumenn muni almennilega skilja tungumál hvers annars og misskilningur geti haft áhrif á afdrif mála eftir á í dómssal. Að auki sé lögreglumenningin ólík í hverju landi sem geti skapað óöryggi meðal borgaranna. Niðurstaða sambandsins virðist vera sú að verið sé að svíkja loforð um aukna fjármuni til löggæslu og fjölgunar lögreglumanna í a.m.k. Noregi og Svíþjóð. Ætlunin sé að „redda“ hlutunum tímabundið með tilfærslu lögreglu milli landa á álagspunktum.

Lofuðu að efla löggæslu í kjölfar Schengen en sviku

Skemmst er að minnast sameiginlegrar yfirlýsingu dómmálaráðherra Norðurlandanna þegar Schengen tók gildi þar sem því var lofað að löggæsla yrði stóraukin og gerð sýnilegri sem mótvægi við opnun landamæranna. Það loforð var gróflega svikið eins og Íslendingar kannast vel við af umræðu síðustu ára um löggæslumál hér á landi.