Innlent | 02.April

Sjálfstæðismenn: Grasrótin ætlar að láta forystuna finna fyrir því

Það lítur út fyrir að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi safnað kjarki til að leggja 3ja orkupakkann fram á þingi þrátt fyrir mikla andstöðu í grasrót flokksins. Nú þegar heyrast raddir þar sem hafðar eru uppi heitstrengingar um að refsa formanni, varaformanni og utanríkisráðherra fyrir svik þeirra við þjóðina. Talað er um að þessu fólki muni ekki vegna vel í næsta prófkjöri og verður áhugavert að sjá hvort forystan muni ekki einfaldlega ákveða að stillt verði upp á lista í kjördæmum þessara þriggja sem hvað mest berjast fyrir innleiðinu orkupakkans. Styrmir Gunnarsson er einn áhrifamanna sem talað hefur gegn innleiðingu orkupakkans en hann hefur sagt á heimasíðu sinni að starfandi sé öflugur hópur úr öllum flokkum og þar á meðal er að finna lykilmenn úr flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Sjálfseyðingarhvöt flokksins virðist ekki eiga sér nein takmörk undir forystu núverandi formanns og varaformanns ásamt þeirra fylgihnöttum. Flokkurinn er að nálgast 20% í skoðanakönnunum en fylgi hans hefur hrapað úr nálægt 40% síðustu áratugi niður í um 25% í síðustu könnun sem gerð var af Gallup. Guðlaugur Þór utanríkisráðherra tilkynnti fyrir stuttu að frestað hefði verið að leggja orkupakkann fyrir Alþingi vegna athugasemda.

Þá var því spáð að þremenningarnir í forystunni væru einungis að taka sér pásu til að undirbúa og matreiða málflutning sinn ofan í grasrótina, þjóðina og þingflokkinn. Nú hefur málið verið lagt fyrir Alþingi.

Eins og áður segir eru uppi heitstrengingar grasrótarinnar um að þessi þrjú muni gjalda dýru verði fyrir stuðning sinn við orkupakkann.