Innlent | 11.September

Telja Evrópusambandssinnar Þýskaland ekki öruggt land?

Samfylkingin hefur boðað að lagt verði fram frumvarp um að veita tveimur fjölskyldum hælisleitenda íslenskan ríkisborgararétt. Í hópnum eru tvær ungar stúlkur og hefur ríkisfréttastofan og Fréttablaðið töluvert fjallað um málið. Á laugardaginn var boðað til samstöðufundar þar sem nokkrir tugir mótmælenda kröfðust þess að fjölskyldurnar yrðu ekki sendar úr landi.

Stofnanir útlendingamála hér á landi hafa fjallað um málið og komist að því að umsókn fólksins um hæli í Þýskalandi er ennþá til umfjöllunar og því ekki ástæða til að byrja sömu vinnu hér á landi líka.

Dómsmálaráðherra hefur sagt að hún muni ekki grípa fram fyrir hendur þeirra stjórnsýslustofnanna sem fara með málið lögum samkvæmt. Hún hefur sagt að hún muni ekki „endurskoða mál sem dúkka hérna tilviljanakennt upp í umræðunni.“

Nokkuð hefur borið á því síðustu misseri að mál einstakra hælisleitenda hafa fengið meiri umræðu í stóru fjölmiðlunum hér á landi en önnur. Þar hafa ákveðnir hópar fólks viðrað þær skoðanir að önnur lönd svo sem Noregur, Svíþjóð, Danmörk, Ítalía og nú síðast Þýskaland séu ekki örugg lönd. Það vekur athygli að meðal þeirra sem halda því fram að lönd Evrópusambandsins séu ekki örugg lönd fyrir hælisleitendur eða að hælisleitendur fái ekki réttláta málsmeðferð í þessum Evrópusambandslöndum er fólk úr íslenskum stjórnmálaflokkum sem hafa það efst á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið eins og Samfylkingin.

No ad