Sögumolar | 06.October

Leitað að gullskipinu

Nokkrir ævintýramenn höfðu lengi leitað að skipi sem átti að hafa verið fullt af gulli er það fórst hér við land fyrir margt löngu. Fór það svo að leitarmenn töldu sig hafa fundið flak skipsins grafið í sandinn á Skeiðarársandi. Svo sannfærandi voru þeir um að þeir hefðu fundið skipið að þeir fengu ríkisábyrgð á fjármagni sem þurfti að fá að láni til að grafa skipið upp. En annað kom í ljós þegar skipið var grafið upp.

„Mennirnir sem árum saman höfðu unnið að björgun gullskipsins svokallaða á Skeiðarársandi, væntu þess að sjá árangur erfiðis síns í ágústlok. Höfðu þeir sleitulaust dælt sandi frá flakinu, sem þeir töldu vera af Het Wapen van Amsterdam og höfðu girt af með miklu stálþili. En í ljós kom, að flakið hafði ekki gullfarm að geyma, heldur reyndist það vera af þýzkum togara, sem mun hafa strandað á sandinum við síðustu aldamót. Þrátt fyrir vonbrigði lýstu gullskipsmenn yfir því, að þeir myndu ekki láta deigan síga, en freista þess að leita áfram að gullskipinu. Á myndinni að ofan er unnið við að reka niður stálþilið.“

Heimild og mynd: Árið 1983.