Viðskipti | 12.February

Er kínverskt efnahagshrun handan við hornið?

Fjárfestar um allan heim reyna nú í örvæntingu að gera sér nákvæma og trúlega grein fyrir því hvernig kínverskur efnahagur stendur. CNN greinir frá.

Margir fjárfestar og fyrirtæki telja að þær hagtölur sem Kínverjar gefa upp séu hreinlega uppkokkaðar af kínverskum stofnunum til að láta landið líta betur út í augum umheimsins.

Fjárfestar hafa margir hverjir lagst sjálfir í rannsóknarvinnu til að skerpa myndina og hafa runnið á þá tvær grímur þegar þeir bera sínar niðurstöður saman við opinberar tölu. Þær hreinlega stemma ekki við þau gögn sem þeir hafa aflað sér og þau samtöl sem þeir hafa átt við kínverska fyrirtækjaeigendur.

Sumar hagtölur sem gefnar hafa verið út af ríkisstofnunum stangast á og ýmsir sérfræðingar sem CNN talaði við viðra þá hugmynd að viðskiptastríðið við Bandaríkin komi verr við Kína en kínversk stjórnvöld vilji vera láta.

„Kínversku hagstofunni er meira í mun að ímynd kínversku stjórnarinnar bíði ekki hnekki heldur en að hafa áhyggjur af því hvort þeir séu að gefa rétta mynd af heilsu efnahagslífsins,“ segja viðmælendur CNN.

Bæði kínverskir og erlendir sérfræðingar virðast sammála um að ástandið muni einungis fara versnandi á næstu mánuðum. Eitt af þeim merkjum um versnandi ástand er nefnt að eyðsla milli stéttarinnar hafi skroppið saman um 3% á síðasta ári og sala á nýjum bílum skrapp mjög saman árið 2018 og hefur ekki verið dræmari í tuttugu ár.