Viðskipti | 16.December

Fréttaskýring: Er rekstur WOW air í brothættri stöðu?

Kjarasamningur sem WOW air gerði við Flugfreyjufélag Íslands var felldur í atkvæðagreiðslu í vikunni. Formaður flugfreyjufélagsins hafði upphaflega neitað að skrifa undir samninginn og bera hann undir atkvæðagreiðslu. Berglind Hafsteinsdóttir formaður Flugfreyjufélagsins neitaði að skrifa undir samninginn í nóvember vegna þess að samningurinn hefði vegið að kjörum framtíðar flugfreyja hjá WOW air.

Hópur flugfreyja hjá WOW air lýsti óánægju sinni með ákvörðun Berglindar og hótaði að kljúfa félagið.

Voru stjórnendur WOW með puttana í málinu?

Samkvæmt heimildum skinna.is voru stjórnendur WOW air í sambandi við forsprakka hópsins sem hótaði að kljúfa flugfreyjur WOW air frá Flugfreyjufélagi Íslands enda hefði samningurinn komið flugfélaginu afar vel miðað við fullyrðingar Berglindar formanns um samninginn. Nýliðar hjá WOW air hefðu fengið laun undir lágmarkslaunum. Félagið hefur fjárfest mikið og veitir ekki af öllum auka krónum - eða gjaldeyri - sem það getur orðið sér úti um. WOW air er lággjalda flugfélag og stjórnendur þurfa að hafa allar klær úti í rekstrinum til að laða viðskiptavini að með lágum flugfargjöldum.

WOW í mikilli útrás og miklum skuldum?

Flugfélagið hefur verið í mikilli útrás og lagst í mjög dýrar fjárfestingar. Gríðarlegar fjárfestingar félagsins hafa vakið athygli. Félagið hefur farið með himinskautum líkt og bankarnir fyrir hrun en þeir fjármögnuðu sig að mestu með skuldsetningu og ekki alltaf að marka ársreikninga þeirra. Ekki er langt síðan félagið fékk úthlutað lóð á Kársnesi í Kópavogi undir höfuðstöðvar. Að auki hefur félagið í hyggju að reisa hótel vestast á Kársnesi. Í júní 2016 skrifaði Skúli Mogensen forstjóri WOW air og Fabrice Brégier forstjóri Airbus undir samning um kaup WOW air á fjórum nýjum Airbus A321 vélum. Listaverð vélanna var 55 milljarðar íslenskra króna.

Í júní á þessu ári sagði Skúli Mogensen forstjóri WOW í viðtali við markaðinn á visir.is að félagið ætlaði að hefja Asíu flug á næsta ári. Fullyrti Skúli að ferðamannastraumurinn til Íslands myndi aukast líkt og gerðist þegar félagið hóf flug til Kaliforníu.

Forstjórinn í tygjum við flugfreyju

Í apríl 2017 sagði visir.is frá sambandi Skúla Mogensen forstjóra WOW air og Grímu Bjargar Thorarensen flugfreyju hjá WOW air. Hún fædd 1991 og Skúli 1968.

Gæti eitt eldgos slegið flugfélagið WOW af?

Ljóst er að ævintýralegur uppgangur flugfélagsins WOW air hlýtur að vera brothættur líkt og ævintýralegur uppgangur bankana fyrir hrun. Kaup á nýjum flugvélum fyrir milljarða, uppbygging nýrra höfuðstöðva og hótels fyrir milljarða og kostnaður við tilraunir á nýjum flugleiðum geta varla verið kostaðar af eigin fé.

Eldgosið í Eyjafjallajökli hjó stórt skarð í rekstur íslenskra og erlendra flugfélaga á sínum tíma. Nú eru eldfjöll á Íslandi aftur farin að láta á sér kræla eins og alþjóð veit. Þar eru engar smá eldstöðvar á ferðinni og gæti röskun orðið á flugi allra flugfélaga til landsins. Hætt er við að skyndileg minnkun á komu ferðamanna til landsins yrði reiðarslag fyrir flugfélag eins og WOW air og auðvitað fyrir önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu. Það hefði því verið fengur fyrir flugfélagið að hafa vaðið fyrir neðan sig og greiða starfsfólki í flugi laun sem væru undir lágmarkslánum líkt og formaður flugfreyjufélagsins fullyrðir að kjarasamningurinn, sem nú hefur verið felldur, hefði gert.