Viðskipti | 15.September

Gjaldþroti WOW air spáð á skinna.is fyrir níu mánuðum?

Greining sem skinna.is birti um brothættan rekstur WOW air fyrir um níu mánuðum síðan, 16. desember 2017, virðist vera að ganga eftir. Ef eitthvað er, virðist stefna í gjaldþrot félagsins áður en árið er úti. Ýmislegt er líkt í rekstri félagsins og var með gömlu útrásarfélögunum og bönkunum hér á landi fyrir hrun. Helst ber að nefna fljótfærnislegar ákvarðanir um útgjöld og ofurtrú á eigin ágæti umfram aðra. Þar má nefna þegar WOW air hóf flug til Ísraels á forsendum sem virðast enganveginn hafa verið ígrundaðar og kostuðu félagið bæði peninga og skaðaði ímynd þess en fluginu var snögglega hætt. Áætlanir félagsins um flug til Asíu eru í þessu sambandi hreinar skýjaborgir.

En ekki síst hefur WOW air safnað á sig vondu orðspori fyrir þjónustu sem hefur gert það að verkum að félagið hefur ekki náð að safna um sig farþegum sem hægt er að segja að séu tryggir viðskiptavinir líkt og Icelandair hefur gert. Sé horft í samkeppni milli WOW air og Icelandair segir greinandi skinna.is að það skíni í gegn að margir telji sig öruggari að fljúga með öðrum flugfélögum eins og til dæmis Icelandair upp á að greitt fargjald standi. Oftast er nefnt, hjá fólki sem greinandinn hefur talað við, að þegar í flugstöðina sé komið þá dúkki upp gjald hjá WOW air sem farþeginn hafi ekki búist við. Þar má telja lítil skjóða eða handtaska sem konur bera gjarnan, að svoleiðis sé talið vera aukahlutur af starfsfólki flugfélagsins og farþeginn þurfi að greiða dýrum dómum fyrir, ofan á hið „ódýra“ fargjald. Ekki bæti úr skák hrokaleg framkoma þegar farþegar reyna að rökræða við starfsfólkið. Símaþjónusta félagsins hefur heldur ekki fengið háa einkunn en eftir lokum skrifstofu virðist sem fólk fái samband við símafyrirtæki í Indlandi sem sjaldnast getur greitt úr vanda farþega.

Íslendingar búsettir á Norðurlöndunum mega fljúga til Íslands með WOW, en ekki heim aftur!

Margir Íslendingar sem hafa ætlað að ferðast til Norðurlanda á grundvelli Norræna vegabréfasamningsins með WOW air hafa orðið fyrir útgjöldum þegar þeim hefur verið neitað um að fara með vél WOW air, því starfsfólk félagsins hefur ekki vitneskju um að samningurinn sé í gildi eða hvort það er að félagið viðurkennir ekki samninginn? Dæmi eru um að Íslendingar sem búa á Norðurlöndum hafi flogið til Íslands með félaginu á grundvelli samningsins en verið svo neitað um far heim þegar þeir ætla að fljúga frá Íslandi með WOW air, sama félagi og þeir komu með til Íslands. Dæmi um hrokalega framkomu starfólks í þeim tilfellum sem hann viti um bæti ekki orðspor félagsins. Þetta fólk hefur þá snúið sér til Icelandair á flugvellinum sem orðalaust hefur selt fólki far heim aftur, með sínum vélum, klukkutíma seinna á gildu skilríki. Svona mál verði umtöluð hafa og verið umtöluð á fésbókarsíðum Íslendingafélaga á Norðurlöndunum.

Til upplýsingar þá kveður norræni vegabréfasamningurinn á um að íbúar Norðurlanda geti ferðast á milli án vegabréfs en á gildu skilríki eins og til dæmis ökuskírteini.

Eigandi WOW air er frekar glaumgosi eins og hinir gömlu útrásarvíkingarnir en ekki „business-maður“

Greinandi skinna.is segir eiganda WOW air, að sínu áliti, bera þess öll merki að vera útrásarvíkingur að hætti hinna gömlu sem settu landið á hausinn. Þeir voru frekar glaumgosar en „business-menn“. Vandræði WOW air séu skýr merki um að næsti efnahagsskellur sé í augsýn innan tveggja til þriggja ára. Það fari hljótt, ennþá, um þau vandræði sem séu í uppsiglingu hjá öðrum stórum Íslenskum fyrirtækum en mörg söguleg merki um að eitthvað sé í vændum eru skýr að hans mati. Eins og til dæmis fjöldi einkaþotna á Reykjavíkurflugvelli sem hafa ekki verið fleiri síðan um hrun og fundur ríkisstjórnarinnar um vanda flugfélaganna sem hann segir að sé yfirvarp. Þar hljóti ýmislegt annað að hafa verið rætt. Einnig sé auðsætt að frumkvæði Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að tala skyndilega um að engin kreppa sé í spilunum og að fjárlagafrumvarpið gefi „borð fyrir báru ef á þarf að halda,“ gefi til kynna að stjórnsýslan sé áhyggjufull og telji meiri líkur en minni séu á efnahagsskell á næstu mánuðum.

Hvernig hann geti greint vanda WOW air án þess að vitna í tölur og rekstrareikning WOW air segir hann að óþarfi sé að tyggja þær upp aftur, þær hafi verið vel kynntar í fjölmiðlum og svo þurfi þess ekki. Ytri merki um vanda félagsins séu svo augljós og borðleggjandi.

Tölfræðilegum upplýsingum félagsins ekki treystandi?

Eins og komið hefur fram er WOW air nú í miklum vandræðum og stendur fyrir skuldabréfaútboði sem átti að ljúka í síðustu viku. Að sögn eiganda félagsins, Skúla Mogensen, hafi það gengið vel og markmið útboðsins náðst. Fyrir þessar upplýsingar gefur greinandi skinna.is lítið. Ekki frekar en uppgjörstölur gömlu bankanna fyrir hrun. Margt sé loðið í þessum upplýsingum og bara það að félagið hafi skilað síðasta ársuppgjöri seint og illa sé tilefni til þess að fara varlega í ályktunum um raunverulega stöðu félagsins. Annað eins hafi nú gerst og bendir hann á vandræðalegt klúður í undirbúningi og kynningu á skuldabréfaútboðinu þar sem ranglega var farið með rekstrartölur í samanburði við Icelandair. Staða félagsins í dag er vonlaus og að hans mati verði félagið orðið gjaldþrota áður en árið er úti.

Að öðru leiti vísar hann í greiningu á skinna.is á vanda WOW air frá 16. desember 2017.

Aðspurður um hvað hinn almenni Íslendingur geti gert ef næsti efnahagsskellur sé í augsýn eftir því sem hann segir, er svarið: „Að borga skuldir og vera eins skuldlaus og fólk hefur ráð á.“