Viðskipti | 03.July

Grænland: Þurfa að loka fiskvinnslu því engin vill vinna

Fyrirtækið Royal Greenland opnaði fyrir hálfu ári fiskvinnslu sem nú er verið að loka. Ástæðan er að fólk fæst ekki til að vinna í verksmiðjunni. Almennt virðist vera erfitt að fá fólk til vinnu í fiskvinnslu á svæðinu.

Yfirmenn Royal Greenland eru að sjálfsögðu svekktir yfir að hafa lagt í mikla fjárfestingu en fá svo fólk ekki til vinnu. Tækin í fiskvinnslunni eru þau nýjustu í bransanum eftir því sem Flemming Andersen, einn yfirmanna, segir í viðtali við grænlenska miðla.

- Það er mjög svekkjandi að hafa fjárfest í splunkunýrri verksmiðju, þar sem öll tæki eru af nýjustu sort og svo bara lætur fólk ekki sjá sig í vinnu, segir Flemming Andersen.

Vinnslan getur séð tíu manns fyrir vinnu og tekið á móti 15 tonnum á degi hverjum.

Hingað til hafa nokkrir trillukarlar hlaupið undir bagga og unnið í verksmiðjunni til að bjarga eigin verðmætum. Í kommenta kerfi blaðsins Sermitsiaq sem fjallar um málið hvetja margir Royal Greenland einfaldlega til að borga betri laun við fiskvinnslu. Þá fari þetta að ganga betur með mannskapinn.