Viðskipti | 02.January

WOW air í fjárhagsvandræðum?

Í fjármálaheimunum gengur sú saga fjöllunum hærra að flugfélagið WOW air sé í miklum fjárhagsvandræðum. Félagið á nú að vera komið í hendurnar á Björgólfi Thor fyrrum eigenda Landsbankans sem á að hafa ábyrgst 10 milljarða króna lán fyrir flugfélagið. Skinna.is hefur áður greint frá því að heimildir hermi að flugfélagið sé að missa flugið. Gríðarlegar fjárfestingar félagsins hafa vakið upp spurningar um hvort eigið fé félagsins standi undir þeim lágu farmiðum sem félagið hefur boðið uppá og kaupum á nýjum flugvélum ásamt milljarða uppbyggingu á Kársnesi í Kópavogi þar sem félaginu var úthlutað lóð undir hótel. Samkvæmt heimildum skinna.is voru stjórnendur félagsins mjög áfram um að flugfreyjur og flugþjónar þeirra stofnuðu nýtt stéttarfélag og segðu sig úr Flugfreyjufélagi Íslands. Formaður Flugfreyjufélagsins neitaði hins vegar að skrifa undir nýjan kjarasamning sem hún sagði að myndi rýra kjör nýrra starfsmanna en samningurinn hefði getað bætt fjárhagslega stöðu flugfélagsins að einhverju leiti. Þá hótaði hluti flugfreyja og flugþjóna WOW air að stofna eigið stéttarfélag. Kjarasamningurinn var að endingu settur í atkvæðagreiðslu meðal flugfreyja og flugþjóna WOW air og var felldur til mikilla vonbrigða fyrir stjórnendur flugfélagsins. Nú hefur komist á samningur sem félagið þarf að vinna úr og ef til vill ástæða þess að Björgólfur hefur verið fengin til að koma inn í félagið. Hvort það dugar kemur væntanlega í ljós á nýju ári.